Hinn fullkomni kaffibolli

Ýmsa þætti þarf að hafa í huga þegar hellt er upp á kaffi. Gæði vatns og kaffibauna, stillingar kaffivélar og umhverfisaðstæður hafa áhrif á lokaafurðina í kaffibollanum. Gæði vatns er mjög mikilvægur þáttur í því að skapa góðan kaffibolla. Notið nýtt, ferskt og kalt vatn á hverjum degi. Athugið að vatnstank kaffivéla þarf að þrífa reglulega þannig að lífrænn vöxtur eða mygla fái ekki þrifist. Kaffibaunir eru misjafnar að gæðum og hafa mikil áhrif á endaafurðina í kaffibollanum. Upprunaland kaffibauna, meðhöndlun þeirra og blöndun gefa mismunandi bragð. Gott er að hafa í huga að mismikil olía er í kaffibaunum, en það er talið vera meira gæðamerki ef olían er lítil.

Umhverfisaðstæður skipta ekki síður máli. Kaffivél sem staðsett er nálægt glugga í sólargeislum er ekki í kjöraðstæðum. Vatnið hitnar mikið og myndar kjörlendi fyrir bakteríur og annan vöxt. Staðsetjið kaffivélar í umhverfi sem breytist lítið, þar sem hitastig er stöðugt og forðist að baða kaffivélina í sólargeislum. Hitastig vatns við uppáhellingu er hægt að stilla í Jura og Miele kaffivélum. Persónulegur smekkur fólks ræður miklu um hversu heitur kaffibolli á að vera. Fyrir þá sem vilja heitt kaffi er mikilvægt að forhita kaffibollann áður en hellt er upp á. Þá er öruggt að enginn hiti frá uppáhellingunni sjálfri fari í það að hita upp postulínið eða glerið í bollanum sjálfum, heldur haldist hitinn allur í nýuppáhelltu kaffinu.

Drekka og njóta

Vatnsmagn er hægt að stilla í Jura og Miele kaffivélum fyrir mismunandi kaffidrykki. Þessi stilling er einnig mjög persónubundin en almennt er talað um að vatnsmagn í ristretto sé 25 ml, espresso 45 ml og lungo kaffibolla 110 ml. Kaffikvarnirnar mala frá 5-16 grömmum af kaffi í hvern kaffibolla og ákvarðar magnið styrkleika kaffibollans. Ef mesti bragðstyrkleiki er valinn, er mesta magn kaffibauna malað í kaffidrykkinn og ef minnsti bragðstyrkleiki er valinn er minnsta magn kaffibauna malað. Að lokum skiptir miklu máli að stilla grófleika mölunar rétt miðað við þær kaffibaunir sem eru notaðar í kaffivélina. Þá gildir hin gullna regla; grófa mölun skal stilla fyrir mikið ristaðar, dökkar baunir og fína mölun skal stilla fyrir lítið ristaðar, ljósar baunir.

Þegar allt hér að ofan hefur verið fullkomnað er ekkert annað eftir en að drekka og njóta!