English   |   Veftré   |   A A

Miele þurrkarar FAQ.

 

1. Spurningar varðandi almenna notkun.

2. Hvað má fara í þurrkara?

3. Spurningar varðandi uppsetningu þurrkara.

4. Lausn vandamála.

 

Við mælum með notkun þvotta- og hreinsiefna frá Miele fyrir öll Miele tæki. Þau eru sérhönnuð til þess að vinna í fullkomnu samræmi við Miele tækin og skila toppárangri í notkun.

 

1. Spurningar varðandi almenna notkun.

Þarf að tæma vatnstankinn í þéttisþurrkurum reglulega?

Já, vatnstankinn þarf að tæma eftir hverja þurrkun. Þurrkarinn kemur frá framleiðanda með affallsslönguna tengda upp í vatnstankinn og þar af leiðandi tilbúinn fyrir handvirka tæmingu vatnstanks. Ef fólk vill spara sér ómakið við handvirka tæmingu er hægt að tengja affallsslönguna í niðurfall og þar af leiðandi þyrfti ekki að tæma vatnstankinn.

Hafa vatnsgæði áhrif á gæði þurrkunar?

Vatnsgæði hafa ekki áhrif á þurrkun í Miele þurrkurum. Allir þurrkarar frá Miele eru með “PerfectDry” og “Sensitive Drying” kerfum sem meta samsetningu vatnsins þegar rakastig er mælt. Þvotturinn verður því hvorki of blautur né of þurr þegar þurrkun er lokið.

Hvernig kem ég í veg fyrir að þvotturinn rúllist upp í bolta í þurrkaranum og þurrkist ójafnt?

Ef þurrkarar snúa þvottinum einungis jafnt í eina átt getur þvotturinn rúllast upp og myndað nokkurs konar bolta. Í þessum tilfellum þurrkast þvotturinn ójafnt og verður krumpaðari en þörf er á. Miele þurrkarar koma í veg fyrir þetta með því að snúa þvottinum í 2-5 mínútur réttsælis og síðan í 30 sekúndur, með ójöfnu millibili, rangsælis. Þurrkun verður því jafnari og krumpur minni. Þegar sængurföt eru þurrkuð er gott að hafa í huga að binda, smella saman og hneppa saman hnöppum, þar sem það á við, til að forðast að minni flíkur eða koddaver endi inni í sængurverum og þvotturinn þurrkist þar af leiðandi ójafnt.

Hvernig minnka ég krumpur og stytti þar af leiðandi tíma og orku sem fer í staujun?

Miele þurrkarar eru með þurrkkerfi sem heitir “Mýking”. Blautur jafnt sem þurr þvottur er mýktur upp á þessu kerfi á stuttum tíma með heitu lofti. Straujun er þar með gerð auðveldari en blautan þvott má einnig oft hengja upp og í sumum tilfellum er straujun óþörf. Gott er að hafa í huga að hægt er að minnka krumpur í fatnaði með því að minnka vinduhraðann á þvottavélinni. Einnig er hægt að minnka krumpur með því að passa það að láta ekki of mikið af þvotti í þvottavélina og þurrkarann.

Af hverju kemur ló þegar þurrkað er í þurrkara?

Ló, mismikil þó, safnast alltaf í lósíu við hverja þurrkun. Allt að 70% af ló sem kemur fram í þurrkurum verður vegna núnings flíka við ýmsa hluti þegar gengið er í þeim, t.d. núningur fatnaðar undir örmum. Þessi ló sest á yfirborð flíkanna. 20% af lónni myndast síðan við núninginn í þvottavélinni og afgangurinn um 10% myndast við núninginn í þurrkaranum. Magn lónnar fer eftir efnasamsetningu fatnaðarins og þyngd eða stærð þvottar sem sett er inn í þurrkarann. Þegar föt eru hengd á snúru þornar lóin oft á flíkunum eða dettur af. Í þurrkurum er lóin blásin af flíkunum og inn í lósíuna þar sem hún er mun augljósari.

Hvers vegna styttist eða lengist þurrktíminn eftir að þurrkkerfi hefur hafist?

Eftir að þurrkkerfi hefur verið sett af stað birtist áætlaður vinnutími á skjá. Áætlaður vinnutími getur breyst oft í byrjun þurrkunar vegna mismunandi þátta, t.d. raka sem eftir er í fatnaði, efnistýpum, þyngd þvottar, hitastigi í herbergi og breytingum á aflgjafa. Vinnutíminn getur því alltaf breyst þar sem þurrkarinn er stöðugt að aðlaga sig að breyttum forsendum.

Hvernig herbergisaðstæður henta þurrkaranum mínum best?

Þurrkara með barka er best að staðsetja í heitu, þurru herbergi. Ástæðan er tvíþætt. Í fyrsta lagi þeim mun heitara sem loftið er þeim mun minna þarf þurrkarinn að hita það upp. Þetta sparar orku. Í öðru lagi þeim mun þurrara sem loftið er þeim mun minni raka þarf að blása út. Þetta styttir þurrktímann.

Þurrkara með þétti er best að staðsetja í köldu, en frostlausu herbergi. Hagstæðast er fyrir þéttisþurrkara að fá kalt loft fyrir þéttni vatns. Ef herbergið er heitt getur þurrkunin tekið lengri tíma en nauðsynlegt er og ekki verið eins áhrifarík.

Um alla þurrkara gildir að best er að hafa loftstreymi af fersku lofti á meðan á þurrkun stendur sem fæst til dæmis með því að hafa opna hurð á herberginu sem þurrkarinn er í.

 

2. Hvað má fara í þurrkara?

Má þurrka föt sem hafa verið stífuð?

Já, það má þurrka þvott sem hefur verið stífaður. Látið tvisvar sinnum meira af efninu sem stífar þvottinn í þvottavélina til að ná tilætluðum árangri.

Má þurrka bómull og straufrían fatnað saman?

Já. Margir Miele þurrkarar eru með sérstöku sjálfvirku kerfi sem er sérstaklega hannað fyrir blandaðan þvott sem inniheldur bómull, straufrí og/eða lín efni. Flokkun eftir efnum er því óþörf. Það eina sem hafa ber í huga er að þurrka ekki alla liti saman, t.d hvítt og hárautt.

Má þurrka tuskudýr í þurrkara?

Já, í Miele þurrkgrind. Þurrkgrindin er tilvalin fyrir þurrkun á viðkvæmum hlutum eins og tuskudýrum og þungum hlutum eins og hlaupaskóm, sem þú vilt ekki að séu að hendast til í tromlunni á þurrkaranum. Mælt er með að nota þurrkkerfið “heitt loft” og endurtaka það eftir þörfum.

Má nota mýkingarefni í fatnað ef ætlunin er að þurrka hann í þurrkara?

Já það er mælt með að nota mýkingarefni, vegna þess að það kemur í veg fyrir að stöðurafmagn myndist í þvottinum á meðan á þurrkun stendur.

Hvernig þurrka ég dúnkodda?

Sumir þurrkarar eru með sértæku kerfi “Pillows” fyrir dúnkodda og dúnfyllta hluti, sem skilar bestum árangri. Í öllum öðrum þurrkurum er best að nota “heitt loft”. Þegar kerfinu er lokið þarf að taka dúnkoddana út, hrista þá til og setja aftur inn í þurrkarann á sama kerfi. Þetta er síðan endurtekið þar til dúnkoddarnir eru þurrir.

  

3. Spurningar varðandi uppsetningu þurrkara.

Er í lagi að setja upp þurrkara í herbergi þar sem hiti fer niður fyrir frostmark?

Nei. Þurrkara ætti einungis að setja upp í herbergi þar sem hitinn er að staðaldri frá +5°C til +35°C. Lægri eða hærri hiti getur skaðað virkni þurrkarans.

Er hægt að breyta barkaþurrkara í þéttisþurrkara eftirá?

Nei það er ekki mögulegt. Utanáliggjandi þéttar sem fást á markaðinum í dag eru allt of veikir. Þessir þéttar geta ekki náð árangursríkri niðurstöðu í þurrkun fatnaðar, þurrkunin yrði alls ekki nógu góð.

Get ég sett þurrkara ofaná þvottavél?

Já, það má spara pláss með flestum Miele þvottavélum og þurrkurum með því að láta þurrkarann ofan á þvottavélina. Nauðsynlegt er að nota millibretti til þess að festa tækin örugglega.

Hvernig á að flytja þurrkara?

Flytja má Miele þurrkara uppréttann. Ef leggja þarf þurrkarann niður má leggja hann á bakið eða hliðarnar.

 

4. Lausn vandamála.

Hvað gæti verið að ef þurrkkerfi tekur óeðlilega langan tíma eða þurrkari stoppar í miðju kerfi?

Loftræstingin gæti verið ónæg eða þurrkarinn átt í erfiðleikum með að blása lofti frá sér. Líklegasta skýringin er stífla. Ef um barkaþurrkara er að ræða er gott að tæma lósíu í hurð og athuga hvort rist sem vanalega er sett á útvegg fyrir útblástur sé stífluð. Ef um þéttisþurrkara er að ræða er gott að tæma lósíu í hurð og athuga hvort þéttir sé stíflaður.

Þéttinn þarf að þrífa mjög reglulega og ekki sjaldnar en mánaðarlega. Hér er sýnt í myndrænu formi hvar þéttirinn er, hvernig hann er losaður út og þrifinn. Vinsamlegast athugið að best er að láta vatn renna alltaf í sömu átt í þéttinum, annars vegar til dæmis alltaf frá framhlið að afturhlið og frá vinstri til hægri. Gott er að merkja þetta með tússpílum á þéttinum. Látið þéttinn þorna alveg áður en hann er settur inn aftur. 

         

Þurrkari fer ekki í gang. Hvað gæti verið að?

Athugið hvort rafmagn sé á þurrkaranum, bæði með því að athuga hvort innstunga sé í sambandi og hvort einhverju hafi slegið út í rafmagnstöflu. Athugið hvort hurðinni sé lokað almennilega og hvort rétt þurrkkerfi hafi verið valið og staðfest.

Gaumljósið “tæmið vatnstankinn” er upplýst. Hvað þarf að gera?

Tæma þarf vatnstankinn sem er staðsettur að framan, efst vinstra megin. Slökkvið á þurrkaranum, tæmið vatnstankinn og setjið hann aftur á sinn stað. Verið viss um að tankurinn smelli til baka á réttan stað. Ef affallsslangan er tengd í niðurfall þarf að athuga hvort einhver stífla hafi myndast í slöngunni eða niðurfallinu.

Þurkarinn tekur óeðlilega langan tíma að þurrka og/eða gaumljós “hreinsið loftrásina” lýsist upp. Hvað er að?

Þrífið vel lósíu í hurð ásamt þéttinum sem er staðsettur að framan, neðst vinstra megin. Þrif á þétti eru sýnd í myndrænu formi hér að ofan.

Vörumerki

miele
Jura
Liebherr
Elica
Smeg
Magimix
Fisher & Paykel
Witt